Leita í fréttum mbl.is

Viltu nytjagarð í þínu sveitarfélagi ?

Margt er í heiminum hverfult en fullvíst má telja að þegar vorar hér á nýju ári munu margir vilja drýgja heimilistekjurnar með því að rækta sínar eigin matjurtir. Með viðráðanlegri vinnu geta fjölskyldur sameinast um það verk og haft af því bæði gagn og gaman.

Allnokkur hópur fólks sem ekki hefur aðgang að landi til ræktunar matjurta myndi kjósa að gera það, ef aðgengilegt land byðist nærri heimabyggð. Umræður um hvaða land eigi að taka undir það og til hversu langs tíma því væri lofað getur verið staðbundin í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Það má vel hugsa sér að taka lóðir þar sem jarðvegur er hagstæður til ræktunar, þó þær hafi átt að vera byggingarlóðir húsa í skipulagi, og úthluta þeim sem ræktunarlandi með ákveðnum skilyrðum etv. til 2-3 ára í fyrstu. Sveitarfélög myndu setja reglur og skilyrði um umgengni og frágang og huga þarf að aðgengi að vatni til vökvunar.

Fyrirkomulag gæti verið með tvennu móti, annars vegar úthlutun skika fyrir fólk sem hefur reynslu af matjurtarækt og treystir sér til að sjá um þetta sjálft og hins vegar matjurtagarðar þar sem sveitarfélagið leggur til einhvern stuðning við framkvæmd í formi leiðsagnar í skipulagningu garða og vali á matjurtum til ræktunar. Þar gætu skólagarðar barna verið fyrirmynd þó að ytri umgjörðin væri einfaldari.

Til að styðja sveitarfélög landsins við að fá yfirsýn yfir áhuga fólks fyrir þessu úrræði hef ég stofnað sérstakt netfang til að sækja um lóð til matjurtaræktunar.

Ef þú vilt lýsa áhuga á að sækja um skika til matjurtaræktunar fyrir sumarið 2009 þá sendið endilega tölvupóst á netfangið nytjagardar@gmail.com

  • með póstnúmeri í "subject" línu

og í texta:

  • upplýsingum um nafn og heimilisfang
  • hvort reynsla er af matjurtaræktun eða hvort áhugi er fyrir hendi en þið þyrftuð leiðsögn við framkvæmd

Upplýsingum um hve margir hafa áhuga á úrræði af þessu tagi verður komið á framfæri við sveitarfélög landsins. Ekkert hefur verið kannað hvaða möguleika sveitarfélög hafa á að veita þessa þjónustu né heldur hvort eða hvaða endurgjald kæmi fyrir. Ef sveitarfélög geta ekki útvegað land, er hugsanlegt að aðrir landeigendur vilji plægja land og veita aðgang að því til tómstundaræktunar á matjurtum og grænmeti. Nálægð við þéttbýliskjarna hlýtur þó alltaf að vera mikilvægur þáttur í því að umönnun sé viðráðanleg og að ræktun þróist farsællega.

Erlendis er hefð fyrir hverfum nytjagarða í skipulagi og má finna slíka garða í flestum þéttbýlisstöðum í Danmörku sem dæmi, þeir kallast kolonihave og má sjá nánar um það á vefslóðinni http://www.kolonihave.dk/. Ennfremur eru til samtök slíkra garða í Bandaríkjunum (sjá http://www.communitygarden.org ) og er á báðum þessum stöðum hægt að fá góð ráð varðandi skipulag svæða og umsýslu.

Fyrir mörgum árum bauðst Reykvíkingum að fá ræktunarland innan borgarmarkanna og muna eldri Reykvíkingar eftir görðum í Vatnsmýri, Kringlumýri og upp við Korpu. Áralöng hefð er fyrir skólagörðum og hafa þeir verið þéttsetnir undanfarin sumur og ekki annað eftirspurn. Vísast þarf að leysa hvernig við útvegum kartöflugeymslur til leigu fyrir uppskeruna en það er yfirstíganlegt.

Úrræði af því tagi sem hér er kynnt þarfnast undirbúnings, land þarf að skipuleggja og undirbúa og kartöflu- og matjurtaræktendur þurfa fyrirvara ef búast má við stóraukinni eftirspurn eftir matjurtum næsta vor. Auðar lóðir í borgarlandi geta orðið uppspretta bæði hollrar útiveru, næringar og ómældrar ánægju.

 

Lilja Sigrún Jónsdóttir


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Lilja Sigrún Jónsdóttir
Lilja Sigrún Jónsdóttir
Læknir áhugasöm um lýðheilsu og samfélagsmál

Færsluflokkar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband