Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Umhverfismál

Hjúkrunarheimilið Fellsendi í Dölum hóf nú í vor eigin grænmetisræktun.

Í Morgunblaðínu í dag var sagt frá því að hjúkrunarheimilið Fellsendi í Dölum hafi í vor, fyrst íslenskra hjúkrunarheimila, hafið eigin grænmetisræktun.

Þetta er skemmtilegt framtak og kryddar örugglega tilveruna hjá þeim sem þar dvelja. Hins vegar er mér kunnugt um að annað hjúkrunarheimili hafi, hér áður fyrr, staðið fyrir ræktun á grænmeti. Það voru Klausturhólar á Kirkjubæjarklaustri. Veit ekki hvernig því er háttað nú.

Það er mikilvægt að viðhalda verkkunnáttu og þiggja það úr náttúrunni sem hægt er að nýta með viðráðanlegu vinnuframlagi. Því er slíkt frumkvæði mikilvæg hvatning til aukinnar sjálfbærni. Vonandi sprettur vel á Fellsenda í sumar.


Góðar fréttir

Frábært að sjá að ónýtt landsvæði fái þetta hlutverk. Gaman væri að sjá bændamarkaði með grænmeti víðar í borginni í sumar.
mbl.is Letigarðar í Kópavog
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matjurtarækt við Hvíta húsið

Nú hafa Obama hjónin ákveðið að vinna land fyrir garð til ræktunar við Hvíta húsið. Þetta geta fleiri gert sér til gagns og gamans.

 


Garðyrkjufélagið fær grenndargarða

Garðyrkjufélag Íslands hefur gert samning við Reykjavíkurborg vegna tilraunaverkefnis um “grenndargarða til matjurtaræktunar í þéttbýli” sumarið 2009. Hægt verður að leigja 25 fermetra garða og er skráning hafin hjá Garðyrkjufélaginu, á gardurinn(hjá) gardurinn.is eða sjá www.gardurinn.is.

Þetta er spennandi sprotaverkefni sem hefur fengið athvarf hjá Garðyrkjufélaginu og Reykjavíkurborg. Nú er bara að safna saman áhugasömu fólki með græna fingur og sjá hvernig framvindan verður.


Jákvætt skref hjá Akureyrarbæ

 Frumkvæði Akureyrar er til fyrirmyndar, hvað varðar að auðvelda fyrstu sporin fyrir reynsluminni aðila. Vona að sem flest sveitarfélög sjái tækifærin í að bjóða upp á ræktunarland.

Garðlönd til ræktunar bjóðast víða en eru ekki mikið auglýst og háð frumkvæði hvers og eins að sækja um. Vonast til að góð nýting fáist í sumar á þeim og ef til vill má taka matjurtabeð í görðum víðar en nú er gert. Það má alltaf tyrfa aftur síðar, ef áhugi á ræktun dvínar.


mbl.is Matjurtagarðar rjúka út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að sækja um lóðir til ræktunar

Nú er daginn farið að lengja og tímabært að hugsa til matjurtaræktunar sumarsins.

Til að eftirspurn skili sér fljótt og vel til sveitarfélaga  vil ég hvetja alla til að sækja um lóðir til ræktunar beint hjá sínu sveitarfélagi.

Ef viðkomandi sveitarfélag býður ekki upp á lóðir, þá er sjálfgert að gefa áhugann til kynna engu að síður. Það eru hlekkir til hliðar á síðunni á þau sveitarfélög sem frést hefur af görðum hjá.

Þau sem ætla að rækta í sumar geta óskað eftir að vera á póstlista í sumar (nytjagardar@gmail.com) þar sem hægt verður að senda fyrirspurnir og er hér með óskað eftir reynsluboltum sem eru reiðubúnir að vera til ráðgjafar á póstlistanum eða á vettvangi. Einnig er á fésbókinni hópur undir heitinu Ræktum garðinn okkar, en það umhverfi gefur möguleika á að fleiri setji inn efni. Þau sem hafa kartöflugeymslur til leigu fyrir næsta vetur, mega gjarnan senda okkur línu einnig.

Þessi starfsemi verður að vera sjálfbær, eins og ræktunin okkar.  Sveitarfélögin hafa mörg tekið þessu vel  og vonandi fá allir garða sem óska eftir þeim í ár.

 


Skorað á Obama að rækta grænmeti

Forsetafrúin Eleanor Roosevelt lét rækta matjurtir í garði Hvíta hússins árið 1943 og fengu þeir hið hvetjandi nafn: Victory Gardens. Hún hafði með því frumkvæði víðtæk áhrif í BNA og þegar fleiri fylgdu fordæmi hennar jókst ræktun grænmetis- og ávaxta á ónýttum lóðum í Bandaríkjunum töluvert og neysla afurðanna einnig.

Obama hjónin eru nú hvött til að ganga á undan með góðu fordæmi og rækta grænmeti í garðinum við Hvíta Húsið til að vekja athygli á efnahagslegum og umhverfislegum ágóða matjurtaræktunar.

Sjá nánar um hugmynd á slóð Change.org


Góðar fréttir fyrir Reykvíkinga

Frábært að sjá skörulega framgöngu Reykjavíkurborgar. Nú þyrfti bara RÚV að taka sig til og endursýna nýlega sjónvarpsþætti sína um garðyrkju og matjurtaræktun, svo að allir sem þurfa að rifja upp handtökin geti glöggvað sig á möguleikunum. Það væri einnig góð leið til að kynna fyrir nýbúum hér á landi hvaða matjurtir er gott að rækta enda bæði tómstundaiðja og búbót.
mbl.is Matjurtagörðum fjölgað í borginni í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nytjagarðar á nýju ári

Þá er daginn farið að lengja og þegar hægt að fylgjast með hækkandi sól. Þakka viðbrögð við grein minni og könnun á hug fólks til ræktunar á eigin grænmeti. Mörg erindi hafa borist af höfuðborgarsvæðinu og hefur verið vakin athygli á þeim. Það eru umsóknir úr öllum póstnúmerum Reykjavíkur, auk Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Kópavogs.

Nú er staðfest að fimm sveitarfélög bjóða garðlönd til leigu fyrir nytjagarða. Þau eru Garðabær, Kópavogur, Mosfellsbær og Vogar á Vatnsleysuströnd auk Reykjavíkur. Höfuðborgin hefur boðið garðlönd til leigu í Skammadal (í Mosfellsbæ) og þar sem börn hafa ekki fullnýtt landrými skólagarða býðst öðrum að leigja garða einnig. Þarna hefur eftirspurn ekki verið mikil en þjónustan lítið kynnt. Auk þess hefur lenging á skólaárinu tafið fyrir starfi skólagarða og þar með úthlutun afgangslóða. Vilji er til að gera betur þar nú og bíð ég spennt eftir að sjá hver útfærslan verður. Mosfellsbær býður upp á garðlönd til ræktunar við Skarhólabraut norðan við Úlfarsfell og treystir sér vel til að bæta við eftir þörfum. Nesbúar ræktuðu grænmeti í návígi við skapstyggar kríur hér áður fyrr en Seltjarnarnes hefur ekki leigt út garðlönd undanfarin ár.

Margir sem sýnt hafa áhuga þekkja slíka starfsemi erlendis frá og hef ég heyrt að sumstaðar beri sveitarfélögum jafnvel skylda til að leysa úr lóðaþörf ef nægilega stór hópur (etv. 12 manns) óska eftir garðlöndum. Gaman væri að fá frásagnir af slíku sem athugasemdir við þetta innlegg.

Það liggur fyrir að allir sem þegar hafa skráð sig eiga að geta fengið garð en ef margir eru enn að hugleiða og vilja láta í ljós áhuga, þá eru aðeins fáar vikur til stefnu. Undirbúningur garða og ræktunar hefst strax í febrúar. Til að rifja upp hversu fallegir slíkir garðar eru vil ég benda á myndaalbúm af skólagörðum.

Þeir sem enn hafa ekki sent inn skeyti en vilja gefa til kynna áhuga ættu því að drífa sig og senda skeyti á nytjagardar@gmail.com með beiðni um lóð (muna að gefa upp póstnúmer). Ennfremur gæti komið sér vel að heyra frá fólki sem hefur reynslu af ræktun og gæti hugsað sér að leiðbeina öðrum.

Næstu skref eru að stofna til samráðs við alla sem hafa óskað eftir lóðum hér í Reykjavík til að ræða þarfir þeirra, áhuga og framkvæmdaleiðir. Þegar það samstarf hefur tekið á sig ákveðnara form verður það kynnt hér nánar.

Hendið endilega á mig línu ef áhugi er fyrir landi eða lóð undir matjurtaræktun næsta sumar. Nú er tíminn til að skipuleggja og undirbúa. Það getur verið kjörið að fjölskyldur taki saman garð eða hafi með sér samstarf, þá má skipta með sér verkum eða skiptast á að vökva.

Með garðyrkjukveðjum, Lilja Sigrún Jónsdóttir.


« Fyrri síða

Höfundur

Lilja Sigrún Jónsdóttir
Lilja Sigrún Jónsdóttir
Læknir áhugasöm um lýðheilsu og samfélagsmál

Færsluflokkar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband